DIMMA – Eldraunir – Útgáfutónleikar

DIMMA – Eldraunir – Útgáfutónleikar

Þungarokkshljómsveitin DIMMA sendir frá sér plötuna Eldraunir í maí næstkomandi. Af því tilefni blæs sveitin til heljarmikilla útgáfutónleika í Háskólabíói laugardaginn 10. júní

Tónleikar Dimmu eru mikið sjónarspil og sveitin leggur mikinn metnað í að útgáfutónleikar hverrar plötu séu með því magnaðasta sem sést á sviði hérlendis og leitast við að toppa sig í hvert skipti. Það er því ljóst að hér er á ferð viðburður sem enginn rokkáhugamaður má láta framhjá sér fara. 

Um ELDRAUNIR

Eldraunir er í raun síðasti hluti af þríleik sem tengist lauslega og hófst með útgáfu plötunnar Myrkraverk árið 2012 en þar var yrkisefnið öll þau mannanna verk sem framin eru í myrkrinu og skuggahliðum mannlífsins. Á Vélráð, sem kom út 2014, ræddi um þá klæki sem mannfólkið notar til þess að beygja náungann undir sinn vilja og ná yfirhöndinni og völdum í samskiptum sín á milli. Eldraunir er svo um erfiðleikana sem við mætum hvert og eitt í lífinu á meðan  við berjumst áfram til að vinna okkur brautargengi í köldum og hörðum heimi.

Tónlistarlega þá kveður við nýjan tón á plötunni en hún er þyngri, harðari og hraðari en fyrri plötur Dimmu. Hljóðheimurinn er einfaldari og  meira lifandi en áður enda var sveitin búin að eyða miklum tíma í demóupptökur áður en komið var í hljóðverið og menn vissu upp á hár hvað gera átti þegar þangað kom. 

Á Eldraunum má því heyra mjög vel æfða rokkhljómsveit sem tekur upp við bestu aðstæður með helstu fagmenn landsins sér til aðstoðar, en platan er tekin upp í Sundlauginni í Álafosskvosinni undir stjórn Haraldar V. Sveinbjörnssonar upptökumeistara en Ívar Ragnarsson hljóðblandar og Hafþór “Tempó” Karlsson tónjafnar.   

Um DIMMU

DIMMA hefur skipað sér í flokk allra vinsælustu hljómsveita landsins á síðustu árum. Sveitin hefur komið fram á hundruðum tónleika út um allt land og gefið út fjölmargar plötur og mynddiska. Tónleikar Dimmu hafa verið sendir út í sjónvarpi og útvarpi og sveitin hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna.  DIMMA vann “Flytjandi ársins” á Hlustendaverðlaununum 2016 og hlaut Krókinn – sem er sérstök viðurkenning RÚV fyrir lifandi flutning á árinu 2014. 

Dagsetning og tími

10. jún kl. 20:00

Verð

5900 kr.